Uppskrift - maregnsterta m/Góu appallo súkk

Ég sá uppskrift af svipaðri tertu fyrir um ári síðan á einhverri bloggsíðu en eins og þeir sem hafa áhuga á bakstri þá breyta þeir alltaf uppskriftunum eftir sínum þörfum og niðurstaðan er þessi hér. Ótúlega góð nammiterta sem klikkar ekki.  

 

Maregns(tveir botnar) – gott að gera daginn áður!

4 eggjahvítur

200 gr. sykur

Byrjað er á að stilla ofninn í 110-120 gráður á undir- og yfirhita. Eggjahvítur þeyttar og sykri bætt út í smátt og smátt þar til marengsinn er orðinn stífur. Til að fá fallegan hring út úr maregnsinum þá er tekinn diskur sem er um það bil 23 cm í þvermál og hann lagður ofaná bökunarpappír, strikaður er hringur eftir disknum. Þetta er gert tvisvar og sett á sitthvora bökunarplötuna. Marengsinum er skipt í tvennt og hann settur á sitt hvorn hringinn. Því næst er slétt jafnt úr marengsinum innan hringsins. Þetta er bakað í rólegheitunum í 2 tíma en gott er að svissa botnunum eftir klukkutíma, setja efri í neðri og neðri í efri. Þegar tveir klukkutímar eru liðnir þá er best að leyfa marengsinum að kólna inní ofninum.

 

Fylling:

½ lítri af rjóma

¼-½  poki af ljósum súkkulaðispænum

4 stk af Góu súkkulaði m/fylltum appolo lakkrís

Rjóminn er þeyttur og súkkulaðistykkin skorin í litla bita, þá er spænum og súkkulaðibitum bætt í rjómann. Þetta er svo sett á milli maregnsbotnanna þegar þeir eru orðnir kaldir.

 

Súkkulaðikrem:

100 gr. smjörlíki

3 dl. flórsykur

2 msk kakó

1 eggjarauða

Dass af vanilludropum

Dass af vatni ef þarf til að þynna kremið!

Bræðið smjörlíkið í potti á vægum hita, bætið flórsykri út í og hrærið vel. Bætið svo vanilludropum, kakói og eggjarauðu saman við og hrærið þangað til að öll hráefnin hafa blandast vel saman og kremið orðið loftkennt. Ef ykkur finnst það of þykkt þá er ágætt að nota smá vatn til að þynna kremið. Þar næst er þessu hellt yfir kökuna og látið þekja vel og leka aðeins niður með kanntinum.

 

Skraut á tertuna:

4 stk af Góu súkkulaði m/fylltum appolo lakkrís.

Þau eru skorin í bita og dreift jafnt og fallega yfir kökuna.