Uppskrift - Kókosbolludraumur

Kókosbolludraum hafa eflaust allir smakkað og ég held ég geti fullyrt að ég hafi aldrei fengið vondan kókosbolludraum og því mæli ég með að henda í einn svona ef þú veist að þú átt von á gestum. Þessi uppskrift hefur verið notuð við allskonar tilefni í minni fjölskyldu og var í mjög mörg ár eftirrétturinn á jólunum. 

 

Maregns m/rice crispies– helmingsuppskrift! 1 stk maregns

2-3 eggjahvítur

2 dl. sykur

1 dl. púðusykur

2 bollar Rice Krispies

 

Aðferð: Gott að gera daginn áður!

Byrjað er á að stilla ofninn í 110-120 gráður á undir- og yfirhita. Eggjahvítur þeyttar og sykri bætt út í smátt og smátt þar til marengsinn er orðinn stífur. Þá er Rice krispies bætt út í og passið að hræra varðlega saman með sleikju. Til að fá fallegan hring út úr maregnsinum þá er tekinn diskur sem er um það bil 23 cm í þvermál og hann lagður ofaná bökunarpappír, strikaður er hringur eftir disknum. Því næst er slétt jafnt úr marengsinum innan hringsins. Þetta er bakað í rólegheitunum í 2 tíma en gott er að svissa botnunum eftir klukkutíma, setja efri í neðri og neðri í efri. Þegar tveir klukkutímar eru liðnir þá er best að leyfa marengsinum að kólna inní ofninum. Áður en þú slekkur á ofninum þá er gott að venja sig á að skoða hvort að hann sé tilbúinn, því bökunartími getur verið svo misjafn eftir ofnum, besta leiðin er að skoða hvort bökunarpappírinn fari auðveldlega frá maregnsinum. Ef hann er ennþá blautur í miðjunni og klístrast við pappirinn þá er gott að leyfa honum að vera aðeins lengur, kannski 20-30 min.  

 

Fylling:

1 pakki af kókosbollum (4 í pakka)

½ líter af rjóma

1 askja af jarðarberjum c.a 350-300 gr.

1 askja af bláberjum ca. 150-200 gr.

250-300 gr. af vínrauðum steinalausum vínberjum

 

Maregnsinn er tekinn og mulinn í botninn á eldföstu móti, því næst eru dreift kókosbollunum jafnt yfir maregnsinn. þetta getur orðið svolítið subbulegt en mér finnst best að taka þær í hendurnar og kermja þær og svo rífa í sundur og dreifa yfir. Þá eru jarðarberin og vínberin skorin í bita, ekki of litla,  og þeim dreift yfir ásamt bláberjunum. Rjóminn er þeyttur og settur jafnt yfir allt gúmmelaðið.

 

Sett ofan á rjóman:

100 gr. suðusúkkulaði

Dass af rjóma eða mjólk

1 poki af Karamellukurli frá Nóa Siríus (200gr.)

 

Suðusúkkulaðið er brotið niður í skál með dass af mjólk eða rjóma og það brætt og hrært í. Ef þér finnst þetta vera of þykkt þá þynnir þú þetta með smá meiri vökva og hrærir. Þessu er svo dreift yfir rjómann og svo karamellukurlið stráð yfir. Tilbúið...mmmmm nammi namm.