Um okkur

 

 

Samgönguminjasafnið í Stóragerði var opnað formlega þann 26. júní 2004 af Ársæli Guðmundssyni þáverandi sveitastjóra Skagafjarðar. Safnið var þá 600fm salur með lítilli gestamóttöku. Á nokkrum árum var umfangið á safninu orðið það mikið að stækka þurfti salinn um 800fm ásamt gestamóttökunni, byrjað var á því haustið 2010 og var full klárað fyrir sumarið 2013. í dag eru um 100 tæki til sýnis í salnum og má þar nefna bíla, rútu, mótorhjól, sleða, búvélar, flugþyt og ekki má gleyma öllu því smádóti sem tengist samgöngusögu Íslendinga. Fyrir utan safnið og í kringum það má svo áætla að séu í kringum 200 bílar og tæki í misgóðu ásigkomulagi sem flestum gestum okkar þykir ótrúlega gaman að skoða. Verkstæði safnsins stendur sunnan við safnið og er öll uppgerð á bílum og tækjum unnin þar. 

 

Eigendur safnsins eru Gunnar Kr. Þórðarson og Sólveig Jónasdóttir. Gunnar er menntaður bifvélavirkjameistari og Sólveig er grunnskólakennari. Gunnar er með brennandi áhuga á samgönguminjum og frá unga aldri hefur hann sjálfur safnað stórum hluta sýningargripanna. Gunnar hefur svo í gegnum árin gert upp bæði bíla og vélar og vel tekist til. En til að varðveislan væri sem best fyrir safngripina þurfti að byggja skemmu og var því lítið annað í stöðunni en að opna þetta glæsilega safn fyrir gesti og gangandi. 

 

Það er svo gaman að segja frá því að eftir að safnið opnaði hafa nokkrir gestanna gefið safninu bíla og vélar í þannig ástandi að lítið eða ekkert hefur þurft að eiga við þau og er það ómetanlegt. Bræður Gunnars, þeir Sigurmon Þórðarson á Hofsósi og Páll Hólm Þórðarson í Kópavogi, hafa svo í gegnum árin verið afar hjálpsamir við upperð á hinum ýmsu tækjum ásamt því að sækja nýja sýningargripi út um allt land.  


Formleg opnun safnsins er frá 1. júní til 30. september og er opið alla daga vikunnar frá 11-18. Aðsókn á safnið hefur farið ört vaxandi seinustu árin og eru Íslendingar mjög duglegir að heimsækja safnið. Seinustu tvö árin hafa erlendir ferðamenn sótt safnið í auknu mæli heim þá sérstaklega frá Þýskalandi, Austurríki og Hollandi. 

 

 

Aðstaðan til að taka á móti stórum hópum jókst til muna þegar aðtöðuhúsið stækkaði og er gaman að segja frá því að salurinn tekur allt að 70 manns í sæti. Þá höfum við verið að leigja hann út fyrir allskonar tilefni og reynst mjög vel. Sumarið 2015 byrjuðum við að halda kaffihlaðborð sem tókust vonum framar og eru þau núna fastur liður í starfsemi safnsins yfir sumartímann. 

 

Á vorin hafa skólahópar alls staðar af landinu verið mjög duglegir að heimsækja okkur og verið mjög ánægðir. Þá hafa eldri borgarar einnig verið duglegir að koma og gaman að sjá hvað lifnar yfir fólki þegar það sér bíla/tæki sem vekja upp gamlar minningar. Óvissuferðir fyrir starfsmenn fyrirtækja eru alltaf að verða vinsælli og hafa nokkrir skemmtilegir hópar komið við hjá okkur.  
 

Eins og margir vita sem eiga og reka starfsemi af þessum toga þá getur verið erfitt fjárhaglega að reka safn sem er einungis með formlega opnun fjóra mánuði á ári. Þá hafa samtökin SSNV sem eru Samtök sveitafélaga á Norðurlandi vestra veitt safninu ómetanlegan stuðning undanfarin ár og væri hreinlega ekki hægt að halda áfram að byggja upp safnið án styrkveitingu frá þeim. Einnig hefur Kaupfélag Skagfirðinga veitt safninu ómetanlegan stuðning ásamt nokkrum öðrum fyrirtækjum og erum við afar þakklát fyrir það.