Dráttavélar

Farmall A - Árgerð 1945

 

Þann 18. febrúar 1945 komu til landsins 25 vélar en alls voru fluttar inn 174 vélar þetta árið frá Ameríku. Þær kostuðu á þeim tíma 5960 krónur. Árið 1946 komu þessar vélar með rafljós og startara.  Þessi vél er sett saman úr tveim vélum,  annars vegar frá Auðnum í Öxnadal og hins vegar frá Tungu á Svalbarðsströnd.

Gunnar gerði vél upp.

 

 

Ferguson - Árgerð 1954

Þessi vél var keypt ný í Stóragerði 1954. Hún var flutt inn með strandferðaskipinu Herðubreið í Hofsós. Í Stóragerði var hún notuð til almennra búverka, túnræktunar og heyskapar. Þórður Eyjólfsson, faðir eigandans, var vörubílstjóri á þessum tíma og var lítið heimavið á sumrin. Þá sáu bræðurnir, þeir Páll, Gunnar og Sigurmon, um að vinna á vélinni þó ungir væru. Oft voru teknir auka rúntar sem tilheyrðu nú ekki búskapnum. Samanber þegar þeir bræður ætluðu út í Marbæli að tefla við Pálma Rögg þá komu þeir sér ekki nema hálfa leið því að þeir óku út í skurð og lentu í miklum svaðilförum þar. Það varð því ekki af skákinni það kvöldið.

Þessar vélar voru framleiddar í Bretlandi. 

 

 

Deutz - Árgerð 1954

Þessa vél keypti Óskar Gíslason, sem var bóndi á Þúfum, nýja árið 1954. Átti hann þessa vél alla sína búskapartíð. Vélin var síðan seld út í Fljót þegar Óskar hættir búskap. Þar fann Gunnar hana í mjög hrörlegu ástandi og var hún gerð upp veturinn 2012 á verkstæði safnsins.

Þessi vél er með eins strokks mótor og gat verið mjög erfið í gang, sérstaklega yfir vetrartímann. Oft mátti litlu muna að misst væri af mjólkurbílnum. Þótt þungt væri að snúa henni í gang á sveifinni kom það ekki að sök því  Gísli og Manni sneru hana í gang eins og leikfangabíl. Stundum kom þó fyrir að vélin væri látin ganga yfir nótt og var þá lítið um svefn á nærliggjandi bæjum þá nóttina því óvenju hátt lét í eins strokks vélinni. Var það gert til að missa ekki af mjólkurbílnum morguninn eftir. Þess þurfti þó ekki þegar bræðurnir voru heima því eins og áður sagði þá fóru þeir létt með ræsinguna þó þung væri.

 

 

Deutz - Árgerð 1958

Vélin var keypt ný á Orrastaði, húsfreyjan á staðnum, Aðalbjörg Signý Sigurvaldsdóttir keypti vélina og vann öll helstu búverk á henni. Sonur hennar, Sigvaldi Sigurjónsson, kemur með vélina í Stóragerði árið 2011. Vélin var í þokkalegu ástandi og var hún gerð upp á verkstæði safnsins veturinn 2011-2012.

 

 

Deutz - Árgerð 1963

Vélin er frá bænum Borgarfelli í Lýtingsstaðarhreppi. Hún er samsett úr tveim hræjum frá þeim bæ. Vélin var gerð upp á verkstæði safnsins veturinn 2012-2013.

 

 

W4 international - Árgerð 1948

Þessa vél keyptu þeir nýja, Grímur Gíslason í Saurbæ í Vatnsdal og Konráð í Haukagili. Á þeim tíma tíðkaðist að tveir bæir tækju sig saman um kaup á vél og var hún notuð til almennra bústarfa á báðum bæjunum. Með vélinni fylgdi járnhjól. Þessar vélar voru kallaðar “Nallar“. Þessi vél var gerð upp af Gunnari á árunum í kringum 2000.