Chevrolet. Árgerð 1943

Chevrolet - Mjólkurbíllinn

Árgerð 1943

 

Fyrri eigendur: Bræðurnir Baldur og Steinþór Þorsteinssynir

Eigandi: Samgönguminjasafnið Stóragerði Skagafirði

 

 

Þessir bílar voru upprunalega framleiddir sem vörubílar til að flytja baðmull og komu þannig til landsins en með íslensku hugviti varð þetta að fjölnota bílum með palli fyrir mjólkurbrúsana og þreföldu húsi fyrir farþegana. Bílar sem þessi urðu því mjög fljótt mikilvægt samgöngutæki á sínum tíma, notaðir sem rútur og flutningatæki og má þá nefna að í ófá skipti var bíllinn notaður til sætaferða á dansleiki. Þetta er eini bíll sinnar tegundar, með þreföldu húsi, sem eftir er hér á landi.

Baldur Þorsteinsson keypti bílinn nýjan og gerði hann út og var í hans eigu alla tíð, eða þangað til að hann selur Gunnari bílinn. Baldur byrjaði mjög ungur að vinna og einkenndist hans starfsferill af miklum akstri, enda var hann mikill áhugamaður um bifreiðar. Á árunum 1940-1945 gegndi Baldur ýmsum verkefnum sem vörubílstjóri og frá árunum 1945-1975 var hann mjólkurbílstjóri um Glæsibæjarhrepp, Öxnadalshrepp og Skriðuhrepp til Akureyrar. Baldur var einn af stofnendum Nýju bílastöðvarinnar á Akureyri, sem síðar varð Stefnir. Baldur gerði út vöruflutningabíl frá Stefni á árunum 1976-1995 og var í samstarfi við Birgi son sinn síðustu árin, eða frá árinu 1987. Baldur sá um póstflutninga í áðurnefndum hreppum, frá árinu 1945 til ársins 1996 eða í 51 ár.

Þessi glæsikerra kemur úr Hörgárdalnum og var hann oft kallaður “Guli bíllinn“. Í sömu útgerð var annar svona bíll, bara styttri, en hann var kallaður “Græni bíllinn“. Þessi tiltekni bíll sá um mjólkurflutninga daglega niður Þelamörk og víðar. Hann var í notkun í mörg ár áður en húsið var byggt yfir hann. Fyrirtæki sem hét BSA á Akureyri byggði yfir hann og kemur honum á götuna eins og hann er í dag í kringum 1949-50 en þá nýttist hann í fólksflutningana líka. Hann var í notkun allt fram til 1964 en þá var honum lagt í Staðartungu og þangað sóttu þeir bræður, Gunnar og Páll, bílinn og var þá útlitið á honum mjög slæmt. Þegar bíllinn kom á safnið í apríl 1993 var hann gerður upp til bráðabirgða, en eftir að hafa staðið út fjölda ára þarf því miður að fara að taka hann allan í gegn aftur. Þegar safnið var stækkað 2013 fékk hann loksins stæðið sem hann stendur í núna og fer því aðeins betur um hann í dag en áður.         

Hingað á safnið hafa svo komið nokkrir góðir menn sem gripið hafa um stýrið á honum og er Árni Hermannsson „Bægisárbóndinn“ einn af þeim.  Hann átti það til að keyra hann þegar menn fóru í frí, en hann sagði að það hefði verið agalegt að bakka bílnum því húsið er svo breitt að speglarnir nýttust ekkert. 

Þessi bíll var notaður í íslensku kvikmyndinni Bíódagar, nánar tiltekið í jarðaförinni.